09 may

Article by the Russian Ambassador to Iceland A.V.Vasiliev “The 75th Anniversary of the Victory in the Great Patriotic War”, newspaper “Morgunblaðið”, May 9, 2020

75 ár sigurafmæli í Föðurlandsstríðinu mikla

Anton Vasiliev,

sérlegur sendiherra Rússneska sambandsríkisins

Þann 9. maí 1945, kl. 00:43 á staðartíma Moskvu var undirrituð Yfirlýsing um skilyrðislausa uppgjöf Þýskalands. Þar með var bundinn endi á Föðurlandsstríðið mikla. Það hófst þann 22. júní 1941 með sviksamlegri árás þýskra nasista og fylgiríkja þeirra á Sovétríkin, en lauk með algerum sigri á innrásaraðilum. Hið mikla Föðurlandsstríð Sovétríkjanna gegn Þýskalandi Hitlers er mikilvægasti og afdrifaríkasti hluti seinni heimsstyrjaldarinnar (1939–1945), mestu hernaðarátaka sögunnar.

Styrjöld þessi breytti gangi mannkynssögunnar, örlögum manna og pólitísku landslagi heimsins. Sigurinn var hinu dýrasta verði keyptur: hann kostaði milljónir mannslífa. Í Föðurlandsstríðinu mikla misstu Sovétríkin um 27 milljónir manna, en það er 40% af öllu manntjóni í seinni heimsstyrjöldinni. Styrjöldin markaði spor í lífi sérhvers Sovétmanns; varla fannst sú fjölskylda sem hafði ekki misst föður, son, bróður eða eiginmann á vígstöðum. Sérhver maður drýgði sína hetjudáð, hvort heldur var í fremstu víglínu eða þar að baki, til þess að Sigurdagurinn mikli mætti færast nær.

Við berum mikla virðingu fyrir framlagi bandalagsríkja okkar til sameiginlegs sigurs á nasismanum. Við metum mikils framtak Íslendinga, en þeir sigldu með hernaðarlega mikilvægan farm til Sovétríkjanna með Íshafsskipalestum frá bandalagsríkjum okkar í stríðinu við Hitler. Þeir stefndu þar lífi sínu í hættu því að þýskum kúlum, sprengjum og tundurskeytum rigndi yfir þá. Í águst 2018 voru samtökin Bræðralag skipalesta bandamanna stofnuð í Reykjavík, en helsti tilgangur þeirra er að varðveita minninguna um skipalestirnar og sporna við fölsun á sögu seinni heimsstyrjaldarinnar.

Í júlí 2019 andaðist María Aleksandrovna Mitrofanova, eina rússneska konan búsett á Íslandi sem hafði gegnt herþjónustu í Föðurlandsstríðinu mikla. Á stríðsárunum var hún loftskeytamaður við herstjórnarráð Þriðju hvítrússnesku vígstöðvanna og tók beinan þátt í því að her Hitlers var gjörsigraður. Við minnumst ævi hennar og hetjudáðar af hlýjum hug.

Því miður hafa nú flestir sem tóku þátt í atburðum seinni heimsstyrjaldarinnar yfirgefið þennan heim, líkt og María Mitrofanova. Það á stóran þátt í því að skilningur núlifandi kynslóða á seinni heimsstyrjöldinni hefur breyst. Ótti mannkyns við þá ógn að þessir hörmulegu atburðir endurtaki sig rénar dag frá degi, en minningin um þá verður oft tilefni ýmiss konar útlegginga og blátt áfram goðsagnasköpunar.

Í sumum löndum hefur þessi tilhneiging því miður snúist upp í verkfæri pólitískra stundarhagsmuna. Til þess að ná eigin skammtímamarkmiðum og minniháttar pólitískum ávinningum eru sumir stjórnmálamenn reiðubúnir að endurskrifa söguna í eigin þágu – og endurskoða þar á meðal sögu seinni heimsstyrjaldarinnar. Viðleitni þeirra er drifin af lönguninni til þess að gera lítið, jafnvel ekkert, úr framlagi Sovétríkjanna til frelsunar Evrópu og Asíu undan fasismanum; lönguninni til þess að leggja að jöfnu Sovétríkin og Þýskaland Hitlers og láta þau allt að því líta út fyrir að vera samsek þeim sem ollu því að stríðið braust út. Þessir tilburðir allir geta ekki annað en vakið réttláta reiði meðal þjóðanna sem báru á herðum sér þyngstu byrðarnar í baráttunni við mannhatursstjórnarfar.

Hafa ber hugfast að kerfi alþjóðasamskipta sem var mótað í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar, kerfið sem hefur Sameinuðu þjóðirnar sem þungamiðju enn þann dag í dag, hefur tryggt Evrópu og heimsbyggðinni allri 75 ára tímabil án gjöreyðandi heimsátaka. Með tilliti til nútíma tækniþróunar hefðu slík átök sannarlega haft hörmulegar afleiðingar.

„Sagnfræðileg endurskoðunarhyggja“ er einnig hættuleg að því leyti að hún grefur undan undirstöðum heimsskipulags okkar tíma og skapar jarðveg fyrir útbreiðslu nýnasískra skoðana og útlendingahaturs. Full viðurkenning á niðurstöðum seinni heimsstyrjaldarinnar, eins og þær settar fram í stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og öðrum alþjóðlegum gerningum, þar á meðal í úrskurðum Nürnberg-réttarhaldanna, hlýtur því að vera afdráttarlaus skylda allra ríkja.

Nú stendur mannkyn enn á ný frammi fyrir sameiginlegri og lífshættulegri ógn. Að þessu sinni er það heimsfaraldur kórónaveirunnar. Reynslan af fordæmalausri alþjóðasamvinnu á hinum erfiðu árum seinni heimsstyrjaldarinnar ætti að vera okkur öllum fyrirmynd dómgreindar og pólitísks vilja þegar aðkallandi er að leggja ágreining til hliðar og leysa hnattræn vandamál í sameiningu.